Site menu:


Snæfellsness og Sönghelli

Fjallasýnin
Útsýnið frá suðurhluta Snæfellsness er frábært á góðum degi. Þá sést fjallahringurinn allt frá Reykjanesi um Borgarfjörð allt til jökla og suðurhluti fjalllendisins á Snæfellsnesi, þar með talinn „Kóngurinn”, Snæfellsjökull sjálfur. Blómleg Staðarsveitin og strandlengjan, sem er sums staðir hulin ljósum sandi, þar sem skeljum skolar á land, Bjarnafoss ofan Búða, Breiðavík og Stapafell prýða þessa fögru mynd.

Beint norðan Búða er Mælifell, formfagurt fjall, og Stapafell er norðan Arnarstapa (526m). Þægilegast er að ganga á það að sunnanverðu, algengasta leiðin er SV., eða SA. hornið, en brattinn eykst er ofar dregur og efsti tindurinn, Fellskrossinn , er illkleifur.

Snæfellsjökull er kóróna fjallaskagans. Hann er svolítið leindardómsfullur vegna orkunnar, sem hann geislar frá sér og skáldsögunnar um ferðina að miðju jarðar eftir Jules Verne. Þarna bjó líka Bárður Snæfellsás í Sönghelli samkvæmt Báðarsögu. Sönghellirinn er norðan við Stapafell. Kunnur fyrir bergmál sitt. Það er auðvelt að ganga á jökulinn, ef farið er með gát, en Miðþúfa, sem er hæst þúfnanna þriggja, er mjög brött og ekki árennileg nema með réttum búnaði.

Snæfellseldstöðin ber merki sérstakrar eldvirkni, bæði á síðasta kuldaskeiði og nútíma. Hún er u.þ.b. 30 km löng, frá Mælifelli í austri að Öndverðarnesi í vestri og talið er að kvikuhólf sé undir henni. Allt að 20 hraun eru talin til hennar og eldkeilan sjálf er af „strato”-gerð (líkt og St. Helens). Talið er, að gos hennar hafi verið bæði mjög sprengivirk og einnig rólegri með hraunrennsli. Þess sjást glögg merki í hlíðunum, þar sem sumar hrauntungurnar teygjast alla leið til sjávar. Toppgígurinn er u.þ.b. 200 m djúpur og Miðþúfa á barmi hans er 1446 m há.