Site menu:


Gullborgarhellir og Vegghellir í Hnappadal

Í Hnappadal austast á Snæfellsnesi varð mikið eldgos snemma á nútíma og myndaði Gullborg og Gullborgarhraun sem er um 15 ferkílómetrar. Hraunið rann í mörgum og stórum neðanjarðarrásum sem sumar urðu að hellum. Eldvarpið Gullborg er glæsilegur gígur sem gaman er að skoða. Miklar hrauntraðir, litlar yfirborðsrásir sem og hellarnir í hrauninu sýna vel hvernig það rann.

Gullborgarhellir er lengstur hellanna í hrauninu. Hann gengur út frá miklu niðurfalli skammt frá gígnum. Heildarlengd hellisins er um 670 metrar. Fyrstu 170 metrana er gengið á hrauntungu sem komið hefur inn í hellinn undir lok gossins. Þessi tunga er gróf yfirferðar en innan við hana tekur við slétt hraungólf inn í botn. Hellirinn er mjög lítið hruninn, stór, upprunalegur, með margvíslegum hraunmyndunum og einn af skemmtilegri hellum á Íslandi. Þegar komið er um 260 metra inn í hellinn greinist hann í tvenn göng sem sameinast svo aftur og eru hvor um sig næstum eins víð og aðalhellirinn. Allra innsti hluti hellisins er girtur af með keðju en þar fyrir innan eru viðkvæmar hraunmyndanir sem gleðja augað. Ekki er leyfilegt að fara inn fyrir keðjuna.

Vegghellir er næstlengstur hellanna í Gullborgarhrauni. Hann er um 320 metra langur og liggur skammt frá Gullborgarhelli og samsíða honum. Um miðbik hellisins eru tvær sporöskjulaga hvelfingar, um 7 metra breiðar og 10-12 metra háar. Allbreiðar syllur (storkuborð) eru með veggjum og sýna vel þá stöðu sem hraunáin var í lengst af. Stutt frá botni hellisins er um 13 metra hár strompur upp til yfirborðs. Þar hefur nokkurt hraun runnið upp úr hellinum. Veggurinn sem hellirinn tekur nafn sitt af er um 74 metra innan við hellismunnann. Hann er hlaðinn úr hraungrýti af gólfinu og liggur þvert á hellinn þar sem hann er um 4,5 metrar á breidd. Gengt er fyrir enda hellisins sem er hálfur fjórði metri á lengd. Veggurinn er tæplega mannhæðarhár og nær næstum upp í hellisloft. Ekki hafa aðrar mannvistarleifar fundist í hellinum. Veggurinn var líklega hlaðinn af dæmdum útlögum sem höfðust við í hellinum árið 1222. Innan við vegginn var hægt að verjast þótt að hellisbúum væri sótt. Náðust kapparnir loks þegar þeir gengu að baðlaug í nágrenninu til að skola af sér óhreinindi. Hellisins er getið í fornsögum (Sturlungu) en týndist svo fram til ársins 1957. Hellirinn, víkingaveggurinn frá 1222 sem og strompurinn innst í hellinum eiga alla athygli skilið.

Baðlaugin sem víkingarnir voru að læðast til árið 1222 þegar þeir náðust er í nágrenni hellanna og þar er tilvalið að baða sig eftir hellaferðina. Í Hnappadal er einnig vatnsmesta ölkelda á Íslandi, Rauðamelsölkelda, og áður en ferðalagið er úti teygum við ferskt ölkelduvatnið og skoðum gamlan kirkjustað sem kominn er í eyði.

Um dagsferð er að ræða en Hnappadalur getur einnig verið hluti af stærra ferðalagi.